Um Neytendavernd

Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna er upplýsingaveita um neytendamál á Íslandi. Hún er þróuð fyrir heimilin í landinu og samtökin. Kynntu þér stöðu neytendamála, baráttumál samtakanna og ráðgjöf HH um viðskipti heimila á fjármálamarkaði.

Á neytendatorgi er fjallað um neytendavernd frá sjónarhorni samtakanna og með tilliti til hagsmuna heimilanna. Stjórn samtakanna vonast til þess að vefsíðan komi til með að þjóna heimilunum sem upphafsreitur í upplýsingaleit hins almenna neytanda og verði mikilvægur hlekkur í neytendavernd á Íslandi. Markmið neytendatorgs er því að verða yfirlitssíða um stöðu neytendamála á Íslandi og varpa fram gagnrýnum spurningum.

Á síðunni er að finna upplýsingar um helstu stofnanir á sviði neytendaverndar, félagasamtök neytenda og neytendarétt. Hagsmunasamtök heimilanna bjóða heimilunum einnig ráðgjöf um viðskipti sín á fjármálamarkaði. Ráðgjöf HH á neytendatorgi mun smám saman verða viðameiri. Síðast en ekki síst er neytendatorg vefsíða samtakanna og því sérhæfð síða um neytendamál á fjármálamarkaði.   

Neytendavernd er hugtak sem vísar bæði í lög og stjórnsýsluleg úrræði sem og aðra hagsmunagæslu neytenda, bæði á vegum félagasamtaka og neytenda sjálfra. Allt stuðlar að því að vernda og auka réttindi neytenda. Í þessu sambandi vegur neytendavitund þungt, því í markaðshagkerfi sem er að stórum hluta neysludrifið erum við öll neytendur. Á tímum opinna hagkerfa og alþjóðlegrar samkeppni um vöru og þjónustu hefur vægi neytendaverndar fyrir heimilin aukist umtalsvert. Það hefur því aldrei verið brýnna en nú að efla vitund neytenda um samtakamátt sinn og efla alhliða neytendavernd á Íslandi.

Siðuð samfélög krefjast sanngjarnra viðskipta og heilbrigðrar samkeppni og þeirri kröfu er fylgt eftir með löggjöf og eftirliti. Skilvirkt fjármálaeftirlit er því einn þáttur neytendaverndar. Stjórnsýslulegar stofnanir á neytendasviði og úrræði eins og úrskurðarnefndir neytendamála eru annar þáttur neytendaverndar, þar á neytandinn að geta leitað réttar síns. Þriðji þáttur neytendaverndar er neytendavitund; samtakamáttur og starf félagasamtaka. Hér er vísað í óháða hagsmunagæslu neytenda en neytendur þurfa að eiga sér öfluga málsvara. Stuðningur hins opinbera við félagasamtök á sviði neytendaverndar er aftur á móti af skornum skammti á Íslandi.  

Nútíma neytendarétt má rekja til ræðu sem John F. Kennedy forseti flutti í Bandaríkjaþingi 15. mars 1962 þar sem hann hélt á lofti fjórum grundvallarréttindum neytenda, sem síðan hafa verið kölluð grunnréttindaskrá neytenda. Sameinuðu þjóðirnar útvíkkuðu þetta í átta grundvallarréttindi með tilmælum sínum um neytendavernd. Í kjölfarið tóku Alþjóðasamtök neytenda þau upp í stofnskrá sína og síðan hefur 15. mars verið alþjóðlegur dagur neytendaréttar.

Öryggi og vernd er rauði þráðurinn í réttindum neytenda. Áherslan er á að samfélagið haldi málefnum neytenda á lofti og málsvörn sé tryggð í málum sem snúa að aðgengi fólks að vöru og þjónustu. Neytendur skulu því eiga sér málsvara og hafa úrræði til úrlausnar í ágreiningsmálum. Aðild Íslands að EES-samningnum hefur verið mikilvægt framfaraskref á Íslandi í neytendamálum, því Íslendingar hafa verið skuldbundnir því að innleiða fjölmargar evrópskar tilskipanir sem falið hafa í sér aukinn réttindi. Neytendaréttur hefur hinsvegar átt á brattan að sækja á Íslandi og flest prófmál íslenskra lántakenda biðu lægri hlut gagnvart lánveitendum í dómskerfinu, í kjölfar gjaldþrota bankanna þriggja í október 2008. Gríðarleg tregða hefur verið verið gegn því að dæma með hliðsjón af heildarhagsmunum neytenda eða með hliðsjón af neytendarétti. Dómstóll Evrópusambandsins metur neytendarétt þó ofar flestu öðru og sem mikilvæga málsástæðu í dómsmálum.

Vitund um grundvallarréttindi og samtakamátt er öllum samfélögum mikilvæg, eitt tæki til þess í samtímanum er neytendavernd og annað er hugsjónin um mannréttindi.

Ísland er aðili að Mannréttindasáttmál Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindahugsjónin fjallar í hnotskurn um að samfélög setji sér þau markmið að verja grundvallarréttindi og tækifæri allra til mannsæmandi lífs og að hafna mismunun í því sambandi. Mannréttindasáttmálinn fjallar því meðal annars um réttinn til mannsæmandi framfærslu, réttinn til húsnæðis og réttinn til eigna. Fjárhagsleg réttindi eru mannréttindi. Ýmis félagsleg og fjárhagsleg réttindi hafa þó átt undir högg að sækja á Íslandi síðastliðna áratugi. Nægir í því sambandi að nefna stöðu húsnæðismála sem hafa mætt sinnuleysi stjórnvalda til langs tíma. Stórir þjóðfélagshópar hafa hvorki haft tækifæri né möguleika til að leigja eða eignast húsnæði. Rétturinn til heimilis hefur því ekki verið virtur.  

Vegna gjaldþrota þriggja einkarekinna banka misstu þúsundir Íslendinga heimili sín og eignaréttur fólks var virtur að vettugi. Þessu hefur einnig verið mætt með sinnuleysi stjórnvalda og þöggun samfélagsins. Auk þess átti sér stað kerfisbundin mismunun í meðferð lánasamninga, því ekki gátu allir lánþegar staðið undir þeim forsendubresti sem átti sér stað. Samingaumleitanir, lækkanir eða niðurfellingar skulda voru því byggðar á óljósum forsendum, voru handahófskenndar og allajafna háð aðstöðumun fólks. Málsvörn um heildarhagsmuni neytenda brást innan dómskerfisins og jafnt aðgengi að dómskerfinu var ekki fyrir hendi. Bankarnir gátu í skjóli fjárráða og valds staðið vörð um sína hagsmuni og fjármagnsafla gagnvart venjulegu fólki og lántakendum sem Hagmunasamtök heimilanna, samtök sjálfboðaliða hafa gert sitt besta til að verja.  

Hugtakið neytandi kemur víða við í íslenskri löggjöf en heildstæða löggjöf um neytendamál er ekki að finna hér á landi. Mikilvægi heildstæðrar löggjafar er hins vegar mikið, því með henni væri tryggður samhljómur í grundvallarþáttum og markmiðum neytendaverndar. Samhljómi um áhersluþætti neytendaverndar væri einnig haldið á lofti með miðlægri upplýsingagjöf til neytenda um neytendavernd á Íslandi.

Markmið Neytendatorgs er að taka markvisst skref í þá átt. Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð til þess að standa vörð um réttindi fólks í viðskiptum sínum við lánastofnanir og halda umræðu á lofti um að verja réttindi neytenda á fjármálamarkaði. Viðskipti heimilanna við banka voru háð öðrum lögmálum um aldamótin, enda höfðu heimilin enga málasvara á fjármálamarkaði lengi vel. Það má í raun segja að neytendavernd á fjármálamarkaði hafi ekki verið til staðar á Íslandi þegar samtökin voru stofnuð. Meðal viðfangsefna Hagsmunasamtaka heimilanna er að fylgjast með framþróun í löggjöfinni og innan stjórnsýslunnar, krefjast umræðu og umbóta með hliðsjón af fjölmörgum mikilvægum hugmyndum sem koma fram í neytendaverndarreglum Evrópusambandsins og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

Neytendavernd á fjármálamarkaði hefur þó tekið markvissum framförum í seinni tíð, til dæmis með aukinni upplýsingaskyldu lánveitenda, bættri réttarstöðu ábyrgðarmanna, og nú síðast varðandi skilyrði nauðungarsölu vegna fasteignalána, ásamt fleiru. Lagasetning um neytendamál hefur að stóru leyti einkennst af innleiðingu laga að Evrópskri fyrirmynd vegna skuldbindinga Íslendinga við EES samninginn.

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum