Ráðgjöf HH

Hagsmunasamtök heimilanna búa yfir viðamikilli þekkingu á neytendamálum á fjármálamarkaði. Eitt meginmarkmiðið með vefsíðu samtakanna er að miðla þeirri þekkingu út í samfélagið og veita heimilunum hagnýta upplýsingagjöf um neytendavernd á fjármálamarkaði. Samtökin veita heimilunum ráðgjöf um fjárhagslegar skuldbindingar sínar í eftirfarandi efnisflokkum: 

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til ábyrgrar neytendahegðunar enda eru fasteignalán í flestum tilfellum einhverjar stærstu skuldbindingar venjulegs neytanda. Upplýsingar um lánskjör eru jafnan aðgengilegar á vefsíðum lánveitenda ásamt reiknivélum. Hinir ýmsu kostnaðarliðir geta verið lagðir á með mismunandi hætti og því ekki alltaf hægt að bera saman lánstilboð á vaxtaprósentunni einni saman. Samkvæmt lögum um neytendalán á jafnframt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað að teknu tilliti til allra kostnaðarliða vegna lántöku og hvaða áhrif breytingar á vöxtum eða öðrum þáttum hafa á þann kostnað. Þegar um verðtryggð lán er að ræða skal einnig taka mið af áhrifum verðbólgu við slíka útreikninga og upplýsa neytendur um þá hækkun sem hún veldur á höfuðstól og greiðslubyrði þegar líður á lánstímann. Lánveitanda ber jafnframt að útskýra alla samningsskilmála rækilega fyrir neytendum og áhrif þeirra, þar á meðal um skilyrði og heimildir til uppsagnar samnings og afleiðingar vanskila.


Helstu lög sem gilda um lánssamninga við neytendur:


Önnur lög er varða réttarsamband lánveitenda og neytenda:

Þessi talning er ekki tæmandi og kann að taka breytingum eftir því sem unnt er að bæta við nánari upplýsingum. Á grundvelli ofangreindra laga hafa verið settar margvíslegar reglur og reglugerðir um framkvæmd þeirra sem er jafnan vísað til í viðkomandi lögum í lagasafninu.

Kostnaður við endurfjármögnun lána hefur lækkað mikið í seinni tíð með afnámi stimpilgjalda af lánaskjölum og banni við hlutfallslegum lántökugjöldum (forvöxtum), auk þess sem vextir hafa lækkað og stefna jafnvel að sögulegu lágmarki. Greiðendur eldri lána með föstum vöxtum geta því mögulega hagnast á því að endurfjármagna þau með nýjum lánum á betri kjörum.

Neytendur sem hyggja á endurfjármögnun eru hvattir til að:

  • kynna sér vel skilmála um uppgreiðslugjöld
  • vera á varðbergi gagnvart skilyrðum um önnur viðskipti
  • gæta þess að frumrit eldri skuldabréfa fáist afhent
  • vera meðvitaðir um ókosti höfuðstólsverðtryggingar

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til ábyrgrar neytendahegðunar enda eru fasteignalán í flestum tilfellum einhverjar stærstu skuldbindingar venjulegs neytanda. Upplýsingar um lánskjör eru jafnan aðgengilegar á vefsíðum lánveitenda ásamt reiknivélum. Hinir ýmsu kostnaðarliðir geta verið lagðir á með mismunandi hætti og því ekki alltaf hægt að bera saman lánstilboð á vaxtaprósentunni einni saman. Samkvæmt lögum um neytendalán á jafnframt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað að teknu tilliti til allra kostnaðarliða vegna lántöku og hvaða áhrif breytingar á vöxtum eða öðrum þáttum hafa á þann kostnað. Þegar um verðtryggð lán er að ræða skal einnig taka mið af áhrifum verðbólgu við slíka útreikninga og upplýsa neytendur um þá hækkun sem hún veldur á höfuðstól og greiðslubyrði þegar líður á lánstímann. Lánveitanda ber jafnframt að útskýra alla samningsskilmála rækilega fyrir neytendum og áhrif þeirra, þar á meðal um skilyrði og heimildir til uppsagnar samnings og afleiðingar vanskila.


Uppgreiðslugjöld

Neytendum er ráðlagt að kanna vel hvort eldri eða ný lán hafi að geyma skilmála um uppgreiðslugjald áður en ráðist er í endurfjármögnun. Aðeins er heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds af lánum sem bera fasta vexti en óheimilt ef vextirnir eru breytilegir. Fram til 1. nóvember 2013 voru skilmálar um uppgreiðslugjald oftast með 2% hámarki. Af lánum teknum eftir 1. nóvember 2013 er óheimilt að krefjast hærra uppgreiðslugjalds en 1% af fjárhæð endurgreiðslu ef meira en eitt ár er til loka lánstíma en annars 0,5%. Af fasteignalánum teknum eftir 1. apríl 2017 má uppgreiðslugjald ekki fara yfir 0,2% af endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir er af binditíma vaxta en þó aldrei meira en sem nemur kostnaði lánveitanda af uppgreiðslunni eða að hámarki 4% af endurgreiðslu. Þá er rétt að hafa í huga að ef ástæða fyrir uppgreiðslunni er gjaldfelling láns, svo sem vegna vanskila, er jafnan óheimilt að krefjast uppgreiðslugjalds.

Hagsmunasamtökum heimilanna hafa borist fyrirspurnir frá neytendum varðandi uppgreiðslugjöld þar sem slíkir skilmálar voru ekki kynntir sérstaklega fyrir neytendum við lántöku og ekkert upplýst um áhrif þeirra á umfang skuldbindinganna. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópuréttar getur upplýsingaskortur leitt til þess að staðlaðir skilmálar sem eru neytanda í óhag teljist vera óréttmætir en samtökunum er þó ekki kunnugt um að reynt hafi á slíkt fyrir íslenskum dómstólum.

ATHUGASEMD: Fyrir dómstólum hafa verið mál er varða lögmæti uppgreiðslugjalda lána Íbúðalánasjóðs, en skilmálar þeirra voru talsvert ólíkir skilmálum annarra lánveitenda um uppgreiðslugjöld. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 3/2021 var því slegið föstu að uppgreiðslugjöld lána sem voru tekin hjá Íbúðalánasjóði fyrir 12. júní 2008 væru lögmæt. Enn á þó eftir að útkljá hvort uppgreiðslugjöld lána sem voru tekin eftir það tímamark með ólíkum skilmálum séu lögmæt, í máli sem bíður þess að komast á dagskrá Landsréttar (mál nr. 617/2021).


Skilyrði um önnur viðskipti

Borist hafa ábendingar um að lánveitendur kunni að setja skilyrði fyrir endurfjármögnun eldri lána, svo sem að neytendur gangist undir samninga um ýmisskonar aðra og ótengda fjármálaþjónustu. Með nýlegum
lögum um fasteignalán til neytenda var þó lagt bann við því að binda lánssamninga og lánstilboð slíkum skilyrðum. Er því rétt að vara neytendur við slíkum viðskiptaháttum en verði þeirra engu að síður vart er hægt að beina kvörtunum til Neytendastofu.



Veðsetningarhlutföll

Við nýja lántöku í tengslum við endurfjármögnun eldri veðlána getur skipt máli hversu hátt hlutfall nýrrar lánsfjárhæðar er af verðmæti fasteignarinnar. Samkvæmt nýlegum reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda má það að hámarki nema 85% af markaðsverði eða 90% ef um er að ræða fyrstu kaup á fasteign. Sumir lánveitendur hafa strangari skilyrði um veðsetningarhlutföll, til dæmis að hámarki 60-75% eða þá að lánveiting umfram þau mörk sé með óhagstæðari vaxtakjörum. Er því rétt að neytendur kanni vel áður en þeir ráðast í endurfjármögnun hvaða áhrif slík skilyrði hafa við samanburð á vaxtakjörum.



Frumrit eldri skuldabréfa

Áður en gengið er frá endurfjármögnun er mikilvægt að fá að sjá frumrit þeirra skuldabréfa sem eldri lán byggjast á. Það er réttur þess sem greiðir upp skuldabréf að fá frumrit þess afhent enda kaupir hann það í raun og veru til baka með því að greiða upp skuldina, til dæmis með nýju lánsfé. Jafnframt er nauðsynlegt að frumriti sé framvísað svo hægt sé að aflýsa veðsetningu fasteignar samkvæmt veðskuldabréfi. Nokkuð hefur borið á því að frumrit liggi ekki fyrir þegar kemur að fullnustu eða uppgreiðslu lána og er því mikilvægt að neytendur gangi úr skugga um slíkt áður en nokkuð er gert sem kann að hrófla við þeim réttindum sem byggjast á frumriti veðskuldabréfs.



Verðtrygging

Loks vilja Hagsmunasamtök heimilanna vara við því að verðtryggð lán séu endurfjármögnuð til lengri tíma en eftir er af upphaflegum lánstíma. Slík framlenging á lánstíma eykur enn við söfnun verðbóta á höfuðstól og margfaldar endanlega greiðslubyrði. Hægt er að draga úr þessum áhrifum með því að gæta þess að nýtt lán sé ekki til lengri lánstíma en eftir er af eldra láninu, eða einfaldlega með því að taka óverðtryggt lán í stað þess eldra. Meginmarkmið Hagsmunasamtaka heimilanna er að útrýma verðtryggingu lána til neytenda enda er hún skaðleg fyrir fjármálastöðugleika.

Hagsmunasamtök heimilanna vara neytendur við skilmálum um breytilega vexti neytendalána sem brjóta í bága við lög um neytendalán. Komið hefur í ljós að slíkir skilmálar eru algengir hér á landi. Ekki síst í útistandandi lánum sem voru veitt í gildistíð eldri laga um neytendalán frá árinu 1994, þar á meðal húsnæðislánum frá árinu 2001, en einnig eru dæmi um slíka skilmála í nýrri lánum.

Samkvæmt eldri lögunum var skylt að geta þess í samningi um neytendalán með hvaða hætti og við hvaða aðstæður vextir eða önnur gjaldtaka tæki breytingum, en þau lög giltu einnig um húsnæðislán frá 11. janúar 2001. Samkvæmt núgildandi lögum frá og með 1. nóvember 2013 er skylt að geta þess í lánssamningi hvaða skilyrði og málsmeðferð gilda um breytingar á vöxtum. Skilmálar þar sem aðeins er tekið fram að lánveitandi geti einhliða ákveðið að breyta hæð vaxta, eru því ólöglegir.

Athuganir Hagsmunasamtaka heimilanna á sýnishornum af ýmsum lánsformum yfir langt tímabil hafa leitt í ljós að ólögmætir skilmálar um breytilega vexti hafa á einhverjum tímabilum verið notaðir af langflestum lánveitendum og hjá sumum þeirra mjög lengi. Neytendur eru því hvattir til að vera vel á verði og fara yfir smá letrið um vexti í lánssamningum sínum, jafnt gömlum sem nýjum.

Neytendur geta leitað eftir ráðgjöf Hagsmunasamtaka heimilanna um skilmála í lánssamningum eða með tilteknu orðalagi, sem felst í því að leggja mat á hvort ákvæði þeirra samræmist lögum og hvort viðkomandi neytendur kunni að hafa tilefni til að leita réttar síns. Þar að auki hafa samtökin beint ýmsum ábendingum og kvörtunum vegna slíkra skilmála til eftirlitsaðila.

Þrátt fyrir ítrekaða úrskurði og dóma um ólögmæti skilmála um breytilega vexti og í sumum tilvikum viðurkenningu fjármálafyrirtækjanna sjálfra á ólögmæti þeirra, hafa þau þó oftar en ekki þráast við að leiðrétta hlut viðskiptavina sinna ef þeir sækjast ekki sérstaklega eftir því. Þannig hefur hver og einn neytandi verið settur í þá stöðu að þurfa að leita réttar síns sérstaklega, í stað þess að slík leiðrétting fari fram sjálfkrafa með samræmdum hætti sem nái jafnt yfir alla að ganga. Engin heilbrigð skynsemi er í því að hver og einn þurfi að fara í mál um það nákvæmlega sama og allir aðrir í sömu stöðu.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað beint þeirri hvatningu til stjórnvalda að leita skilvirkari leiða til að knýja fram leiðréttingar á málum sem þessum er varða umtalsverða fjárhagslega hagsmuni stórra hópa neytenda, til að efla réttarstöðu þeirra. Þar á meðal að samtökum neytenda verði veitt skilvirkari úrræði til að koma fram fyrir hönd neytenda í heild og eftirlitsstjórnvöld fái skýrar heimildir til að banna notkun ólögmætra skilmála í samningum við neytendur og mæla fyrir um hvernig skuli leiðrétta hlut viðkomandi neytenda í slíkum tilvikum.


Dæmi um ólöglega vaxtabreytingarskilmála

Fram til ársins 2008 og jafnvel lengur voru skilmálar sem þessi algengir:

“Í vexti af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuldara að greiða breytilega vexti eins og þeir eru ákveðnir af [lánveitanda].”

Árið 2009 voru slíkir skilmálar fyrst úrskurðaðir ólöglegir og svo ítrekað í fleiri málum. Ekkert kemur fram um aðstæður eða skilyrði vaxtabreytinga heldur áskilur lánveitandi sér sjálfdæmi um hversu háa vexti hann innheimtir á hverjum tíma. Slíkir skilmálar eru óréttmætir og þar með óskuldbindandi fyrir neytendur. Stundum hefur verið bætt við áskilnaði um heimild til að breyta vaxtaálagi eða færa lán á milli vaxtaflokka, en um það gildir sama meginregla að með slíkum skilmálum má lánveitandi ekki áskilja sér sjálfdæmi um að breyta því hve háa vexti hann innheimtir á hverjum tíma.

Einnig hafa skilmálar um svokallaða vaxtaendurskoðun verið taldir ólöglegir, svo sem þessi:

“Vaxtaendurskoðun. [Lánveitanda] er heimilt að breyta ofanskráðum vöxtum á vaxtagjalddögum en þó ekki fyrr en að liðnum […] árum frá útgáfudegi skuldabréfs þessa og síðan á […] ára fresti.”

Samkvæmt þessu breytast vextirnir ekki á hverjum og einum gjalddaga heldur eru þeir endurskoðaðir með nokkurra ára millibili. Þrátt fyrir lengra tímabil milli vaxtabreytinga hafa slíkir skilmálar verið taldir fela það í sér að vextir séu breytilegir og falli því undir sömu reglur um gilda um breytilega vexti. Komi ekkert fram um aðstæður eða skilyrði vaxtabreytinga heldur áskilji lánveitandi sér sjálfdæmi um hve háa vexti hann innheimtir á hverjum tíma eru slíkir skilmálar ólöglegir.

Hafi neytandi ofgreitt vexti á grundvelli ólöglegra skilmála um breytilega vexti á hann að geta krafið lánveitanda um leiðréttingu skuldar eða endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem hafa verið ofteknar. Þrátt fyrir það hefur komið í ljós að allur gangur er á því með hvaða kjörum slíkar leiðréttingar eru gerðar í reynd og ýmis álitaefni um það hafa ekki enn verið skýrð nægilega vel í framkvæmd.

Lagareglur (miðað við lántökudag)

Réttarframkvæmd


Tilkynningaskylda

Frá og með 7. júní 2008 hefur lánveitendum borið skylda til að tilkynna neytendum um breytingar á vöxtum á lánum þeirra. Upphaflega þurfti aðeins að tilkynna um hækkanir á vöxtum með minnst viku fyrirvara og var nægilegt að gera það með rafrænum hætti.

Samkvæmt núgildandi lögum um neytendalán frá 1. nóvember 2013 og fasteignalán til neytenda frá 1. apríl 2017 er aftur á móti skylt að upplýsa neytanda um allar breytingar á vöxtum með tilkynningu á pappír eða öðrum varanlegum miðli, með 30 daga fyrirvara að jafnaði. Heimilt er að víkja frá þessu ef breytingar á vöxtum fara eftir fyrirfram ákveðnu viðmiði, svo sem opinberum viðmiðunarvöxtum eða vísitölum, en þá er nægilegt að upplýsa neytanda um þær með ákveðnu millibili. Jafnframt skal við gerð lánssamnings upplýsa um sögulega þróun breytilegra vaxta á sambærilegum lánum og áhrif breytinga þeirra á greiðslubyrði lána með breytilegum vöxtum.

Ekki hefur reynt á tilkynningaskyldu um vaxtabreytingar í réttarframkvæmd samkvæmt núgildandi lögum um neytendalán og fasteignalán til neytenda. Eitthvað hefur reynt á slíka tilkynningaskyldu vegna yfirdráttarlána samkvæmt eldri lögum en í þeim tilvikum hefur jafnan verið talið nægilegt ef upplýsingar um vexti komu fram í reikningsyfirlitum eða almennum auglýsingum lánveitenda.

Lagareglur


Breytilegir vextir og uppgreiðslugjöld

Sú skýra meginregla hefur mótast að óheimilt sé að krefjast uppgreiðslugjalds af neytendalánum sem eru með breytilega vexti. Svipuð regla var fyrst lögfest árið 2008 en samkvæmt sáttum sem bankarnir gerðu við Samkeppniseftirlitið árið 2017 hétu þeir því að innheimta ekki uppgreiðslugjöld af neinum lánum sem bera breytilega vexti, óháð því undir hvaða lögum viðkomandi lán voru upphaflega veitt. Þessi ófrávíkjanlega regla hefur jafnframt verið lögbundin frá 1. nóvember 2013. Má því fullyrða að í öllum tilvikum sé óheimilt að innheimta uppgreiðslugjöld af lánum með breytilega vexti.

Lagareglur

Ákvarðanir

Ef neytandi sér fram á að lenda í vanskilum með skuldbindingar sínar er mikilvægt að hafa strax samband við lánveitendur og aðra kröfuhafa, upplýsa þá um stöðuna og reyna að semja við þá um að veita greiðslufrest á meðan unnið er að því að leysa úr greiðsluvandanum. Takist það ekki getur komið til þess að kröfuhafar grípi til harðari innheimtuaðgerða með auknum kostnaði. Telji skuldari kröfuna vera óréttmæta eða rangt reiknaða, er ekki síður mikilvægt að bera þau mótmæli fram strax og þá er lykilatriði að gera það skriflega, að minnsta kosti með tölvupósti eða bréfi, og fara fram á að erindinu verði jafnframt svarað skriflega.

Innheimtuferlið skiptist í meginatriðum í þrjú stig: Fruminnheimtu, milliinnheimtu og löginnheimtu. Samkvæmt innheimtulögum felst fruminnheimta í því að senda innheimtuviðvörun til skuldara með upplýsingum um kröfuna og afleiðingar vanskila. Verði kröfunni þá ekki komið í skil tekur jafnan við milliinnheimta en þá hækkar kostnaðurinn með hverju innheimtubréfi auk þess sem dráttarvextir halda áfram að safnast upp. Algengt er að kröfuhafar feli sérstökum innheimtuaðilum að sjá um slíka innheimtu fyrir sig en það á þó ekki að skerða réttindi skuldara á neinn hátt.

Beri milliinnheimta ekki árangur er næsta úrræði kröfuhafa að hefja löginnheimtu samkvæmt lögum um lögmenn, en slík verkefni er jafnt hægt að fela lögmanni sem starfar fyrir kröfuhafa eða sérstakri innheimtustofu. Löginnheimta er innheimtumeðferð á grundvelli laga um aðför; laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.; laga um nauðungarsölu; laga um meðferð einkamála; laga um gjaldþrotaskipti o.fl.; eða laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Upphaf löginnheimtu markast jafnan við sendingu greiðsluáskorunar, birtingar stefnu eða svipaðra tilkynninga með ábyrgðarbréfi eða með liðsinni stefnuvotta. Hafi neytandi hug á að taka til varna eða leita aðstoðar samtakanna við slíkar aðstæður er algjört grundvallaratriði að gera það um leið og slík áskorun eða tilkynning berst, en sé það gert of seint er hætta á að andmælaréttur glatist.

Sú leið sem er farin við löginnheimtu ræðst jafnan af tegund kröfunnar. Flestar slíkar aðgerðir geta leitt til stjórnvaldsákvarðana eða dómsúrlausna sem eru birtar opinberlega og eru þá skráðar sjálfkrafa á vanskilaskrá sem merki um vanskil. Hinn skráði hefur þó andmælarétt, til dæmis ef hann hefur greitt kröfuna, komið henni í skil, eða mótmælt henni með sannanlegum hætti.

Fasteignalán til neytenda eru oftast í formi veðskuldabréfs sem veitir heimild til að krefjast nauðungarsölu þeirrar fasteignar sem er veðsett til tryggingar láninu og er það jafnframt beinasta leiðin til að innheimta kröfu sem er komin í vanskil. Samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda er lánveitanda þó skylt að gefa neytanda kost á öðrum úrræðum til að leysa greiðsluvandann áður en krafist er nauðungarsölu. Stundum eru fasteignalán ekki í formi skuldabréfs heldur lánssamnings en þá er lánið gjarnan tryggt með svokölluðu tryggingarbréfi sem felur í sér veðsetningu fasteignar og heimild til að selja hana nauðungarsölu vegna vanskila, en slík heimild er þó aðeins gild ef skýrt kemur í tryggingarbréfinu hvaða lán það á að tryggja. Hins vegar eru tryggingarbréf sem veita opna heimild til tryggingar fyrir “öllum skuldum” við veðhafa ekki gild heimild til nauðungarsölu heldur verður þá að leita atbeina dómstóla til að fá aðfararhæfan dóm og gera fjárnám í fasteigninni þ.e. taka veð í henni og á grundvelli þess má svo krefjast nauðungarsölu. Sama gildir um lögboðin gjöld af fasteignum en slíkar kröfur kallast jafnan lögveðskröfur, þar á meðal eru fasteignagjöld, veitugjöld, brunatryggingar, hússjóðsgjald í fjöleignarhúsum o.fl. Frumskilyrði fyrir slíkum aðgerðum er að senda þarf  greiðsluáskorun til skuldara með minnst 15 daga fyrirvara, en við það telst löginnheimta hafin og kröfuhafa heimilt að skrá kröfuna á vanskilaskrá.

Almenn neytendalán eru stundum í formi skuldabréfa (án veðtryggingar) en þau eru oftast með heimild til að gera fjárnám hjá skuldara eða ábyrgðarmönnum í einhverjum eignum þeirra og á grundvelli þess er svo hægt að krefjast nauðungarsölu þeirra eigna. Ef engar eignir finnast lýkur fjárnámi án árangurs, sem getur haft frekari afleiðingar í för með sér, þar á meðal heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldarans. Hins vegar verða sífellt algengari lánssamningar sem geta tekið á sig fjölbreyttar myndir, en sem dæmi má nefna bílalán, yfirdráttarheimildir, greiðslukort með raðgreiðslum eða einhverskonar greiðsludreifingu, rafræna lánssamninga sem stofnað er til á netinu eða með snjalltækjaforritum, o.m.fl. Slíkir samningar eru ekki aðfararhæfir til fjárnáms og verður því ekki staðið að löginnheimtu þeirra nema með því að höfða dómsmál til að fá kröfuna viðurkennda og þar með aðfararhæfa. Höfðun dómsmál hefst með því að birta stefnu fyrir skuldara þar sem honum er gert að mæta fyrir héraðsdóm og svara kröfunni, en mæti hann ekki leiðir það sjálfkrafa í sér viðurkenningu á kröfunni. Á grundvelli slíkrar viðurkenningar má krefjast fjárnáms fyrir kröfunni og í kjölfarið nauðungarsölu á þeim eignum sem gert var fjárnám í.

Bílasamningar eru ólíkir bílalánum að því leyti að þá er ekki lánað fé til kaupa bifreiðar heldur kaupir lánveitandi bifreiðina og lánar hana svo til neytanda gegn því að hann endurgreiði kaupverðið með vöxtum og öðrum kostnaði með tilteknum fjölda afborgana, en neytandinn eignast ekki bifreiðina fyrr en hann hefur staðið skil á þeim að fullu. Þar sem eignarrétturinn færist ekki yfir til neytanda fyrr en í lok samningstímans er réttarstaða hans fram að því lakari en ef um bílalán væri að ræða. Þar sem stofnkostnaður neytendalána hefur lækkað mikið í seinni tíð ættu neytendur því frekar að sækjast eftir eiginlegum bílalánum ef langtímamarkmið þeirra er að eignast viðkomandi bifreið.

Löginnheimta á grundvelli bílasamninga er ólík öðrum tegundum neytendalána, þar sem trygging lánveitanda felst í því að vera skráður eigandi ökutækisins á samningstímanum. Áður fyrr voru dæmi um að í slíkum tilvikum væri gengið svo langt í innheimtuaðgerðum að lánveitendur sendu menn á sínum vegum til að sækja bifreiðar, en slíkt er nú með öllu óheimilt gegn vilja skuldara. Þess í stað verður að leita úrskurðar héraðsdóms um heimild til aðfarar með innsetningu, sem felur í sér að leita má atbeina sýslumanns um vörslusviptingu bifreiðarinnar.

Ef allt um þrýtur verður neytandi sem stendur frammi fyrir löginnheimtu að vanda sig í öllum viðbrögðum við þeirri stöðu og afla sér áreiðanlegra upplýsinga og ráðlegginga um þau úrræði sem kunna að koma til greina. Ef ætlunin er að taka til varna eða leita réttar síns er sem fyrr segir algjört lykilatriði að gera það strax frá byrjun og leita sér ráðgjafar fagfólks í þeim efnum.

Helstu lög og reglur:

Vanskilaskrá fellur undir reglur um fjárhagsupplýsingastofur samkvæmt persónuverndarlögum og reglugerð um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Hér á landi er starfrækt eitt fyrirtæki á þessu sviði, Creditinfo Lánstraust hf., en starfsemi þess byggist á starfsleyfi frá Persónuvernd þar sem eru sett nánari skilyrði fyrir starfseminni. Þessar reglur veita hinum skráða ýmis réttindi, svo sem upplýsingarétt og andmælarétt. Allir Íslendingar geta fengið ókeypis aðgang að kerfi Creditinfo (mitt.creditinfo.is) og flett þar upp stöðu sinni í skrám fyrirtækisins, svo sem um stöðu vanskila, fyrirhugaðar skráningar, uppflettingar og vöktun af hálfu kröfuhafa. Þar er gefinn kostur á að gera athugasemdir við skráningar sem eru rangar og aðgerðir sem eru óréttmætar. Auk þess er hægt að panta skuldastöðuyfirlit og lánshæfismat gegn vægu gjaldi. Persónuvernd hefur eftirlit með starfseminni og tekur kvörtunum yfir hugsanlegum brotum gegn reglum sem um hana gilda.

Skráningar á vanskilaskrá eru aðallega notaðar til að meta lánshæfi einstaklinga eins og er skylt vegna nýrra fasteignalána samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda sem og annarra neytendalána yfir ákveðnum fjárhæðarmörkum samkvæmt lögum um neytendalán. Meðal þeirra atriða sem geta haft áhrif á lánshæfismat eru fyrrum skráningar á vanskilaskrá, upplýsingar úr skattskrá, aldur, búseta, hjúskaparstaða og aðrar lýðfræðiupplýsingar. Þegar sótt er um lán felst jafnan í skilmálum umsóknar heimild handa lánveitanda til að sækja upplýsingar úr vanskilaskrá, þar á meðal um lánshæfismat umsækjanda. Neytendur sem hyggja á lántöku eru því hvattir til að nýta sér þann kost að panta sitt eigið lánshæfismat svo þeir viti hvað kemur fram í því, áður en sótt er um lán. Komi í ljós forsendur sem hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat en kunna að vera rangar eða óréttmætar er jafnframt hægt að nýta sér réttinn til andmæla og krefjast leiðréttingar á lánshæfismatinu.

Samkvæmt starfsleyfi Creditinfo er óheimilt að vinna með upplýsingar um umdeildar skuldir, en til þess að skuld teljist umdeild þarf skuldari að koma andmælum við skuld á sannanlega á framfæri við kröfuhafa og á það við þar til ágreiningur um skuldina hefur verið leystur með dómi eða þá að framkvæmt hafi verið fjárnám eða nauðungarsala. Með úrskurði í máli nr. 2017/1620 sem á rætur að rekja til Hagsmunasamtaka heimilanna komst Persónuvernd jafnframt að þeirri niðurstöðu að dómur í máli sem hefur verið endurupptekið eða þar sem áfrýjunarfrestur væri ekki liðinn og enn væri því hægt að áfrýja, teldist ekki fela í sér endanlega staðfestingu á umdeildri skuld og væri því óheimilt að skrá hana að svo stöddu á vanskilaskrá. Enn fremur var talið að bann við vinnslu upplýsinga um hina umdeildu skuld virkjaðist við það að slík mótmæli berist Creditinfo, enda hefði kröfuhafa verið ljóst um ágreininginn vegna endurupptöku og áfrýjunar málsins.

Neytendur á fjármálamarkaði eru hvattir til að kynna sér eiginleika vanskilaskrár og lánshæfismats ásamt þeim reglum sem um það gilda. Ef umdeildar kröfur eru skráðar á vanskilaskrá eru neytendur í þeirri stöðu jafnframt hvattir til að koma mótmælum sínum á framfæri við kröfuhafa og senda afrit af þeim til Creditinfo ásamt því að nýta sér þá möguleika sem vefkerfi fyrirtækisins býður upp á til að gera athugasemdir við skráningar og færslur í kerfinu. Loks skal bent á að óheimilt er að skrá vanskil lengur en í fjögur ár vegna sömu kröfu en dæmi eru þó um að þeim tíma liðnum hafi skráningar ekki fallið sjálfkrafa niður og þurfa neytendur því að vera meðvitaðir um rétt sinn og að þeir geti hugsanlega þurft að ganga sjálfir eftir afmáningu gamalla skráninga á vanskilaskrá.

Helstu lög og reglur:

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum