Starfsemin

Samtökin voru stofnuð til varnar hagsmunum lántakenda og íslenskra heimila eftir gjaldþrot þriggja einkarekinna banka. Umræða um hagsmuni heimilanna á fjármálamarkaði var og er brýn.  

Samtökin hafa lengi verið eini óháði ráðgefandi aðilinn á fjármálamarkaði en samtökin veita félagsmönnum sínum lögfræðilega ráðgjöf um réttindi sín og aðstoða eins og unnt er við málarekstur til að ná fram þeim réttindum og verja þau.

Afstaða samtakanna er sú að neytendur/lántakendur eigi ekki að vera háðir ráðgjöf eða afstöðu fjármálafyrirtækja í viðskiptum sínum enda eru þau ekki hlutlaus í þeirri afstöðu. Það er nauðsynlegt að óháð ráðgjöf sé öllum aðgengileg. Viðskipti heimilanna á fjármálamarkaði eru einn stærsti útgjaldaliður þeirra og gríðarlega mikilvæg fyrir heimilin, hagkerfið allt og lífskjör landans. 

Neytendatorg er nýr í liður í starfsemi samtakanna. Undirliggjandi markmið þess er að miðla þekkingu af vettvangi samtakanna út í samfélagið með gagnlegum hætti fyrir íslensk heimili. 

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík


  1. apríl 2020

Efni: Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um 722. mál á 150. löggjafarþingi

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

(meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.)

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að heimila ýmist varanlega eða til bráðabirgða rafræna málsmeðferð og notkun fjarfundabúnaðar við fyrirtökur mála af ýmsu tagi. Þar sem víðtækar hömlur eru nú á samkomum og samskiptamöguleikum eru þetta eðlileg og nauðsynleg tímabundin viðbrögð, sem Hagsmunasamtök heimilanna eru almennt fylgjandi.

Engu að síður verður ekki hjá því komist að gagnrýna harðlega 10. gr. frumvarpsins um aðfarargerðir og 12. gr. þess um nauðungarsölur. Báðar eru þær orðaðar þannig að heimilt verði að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum síma eða fjarfundabúnað og að það jafngildi því að gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur fyrirtökuna í skilningi laganna. Ekkert er minnst á gerðarþolanda í þessu sambandi eða hvernig tryggja skuli möguleika hans á aðkomu að fyrirtöku til að gæta réttar síns. Gætir að því leyti ósamræmis við orðalag 11. gr. um fyrirtökur í kyrrsetningar- og lögbannsmálum, þar sem er ekki gerður neinn slíkur greinarmunur á gerðarbeiðanda og gerðarþola.

Jafnframt skortir algjörlega útfærslu á því hvernig staðið skuli að framkvæmd fjarfundar í slíkum tilfellum, svo sem hvaða fjarfundabúnað megi nota, hvernig aðgengi gerðarþola að þeim búnaði verði tryggt, hvernig kröfur um persónuvernd, þ.m.t. um samþykki, verði uppfylltar o.s.frv.

Enn fremur er 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins stórgölluð. Hún kveður á um framlengingu á tilteknum tímafrestum ef ekki er hægt að fylgja þeim sökum óyfirstíganlegrar hindrunar, en þeir frestir eru allir í þágu gerðarbeiðanda. Ekkert er hins vegar minnst á tímafresti sem gerðarþoli hefur hagsmuni af, svo sem frest til að koma fram mótmælum eða til að bera ágreiningsefni undir dómstóla.

Um þessar mundir sjá tugþúsundir heimila fram á algjöra óvissu og mjög erfiða fjárhagslega stöðu á komandi mánuðum, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Þess vegna hafa stjórnvöld í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum þar til þetta ástand verður yfirstaðið. Á sama tíma leggur dómsmálaráðherra Íslands fram frumvarp sem er beinlínis að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr og hunsar margítrekað ákall Hagsmunasamtaka heimilanna um að stjórnvöld tryggi að ekki einn einasti íbúi landsins þurfi að missa heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins. Þær tillögur sem gerðar eru í umræddum ákvæðum frumvarpsins eru hreinlega fáránlegar á þessum tímapunkti, svo ekki minnst á þá gjörsamlega óverðskulduðu þjónkun við gerðarbeiðendur og grófu mismunun í garð gerðarþola sem birtist í orðalagi þeirra.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka þá sjálfsögðu kröfu sína að nauðungarsölur og aðfarargerðir þar sem gerðarþoli er neytandi, verði stöðvaðar til næstu áramóta eða að minnsta kosti svo lengi sem í gildi eru einhver fyrirmæli um samkomutakmarkanir samkvæmt sóttvarnalögum. Heimilin verða að fá fullvissu fyrir því að öryggi þeirra verði tryggt á þessum óvissutímum og í því sambandi er ekki síður mikilvægt hvaða skilaboð stjórnvöld senda frá sér með aðgerðum sínum. Þetta snýst ekki eingöngu um fjárhagslega hagsmuni heldur einnig um vernd mannréttinda og lýðheilsu þar sem langvarandi áhyggjur og kvíði geta leitt til alvarlegra heilsufarslegra og félagslegra vandamála.

Að öðrum kosti krefjast samtökin þess að frumvarpi þessu verði breytt þannig að hið minnsta verði gerður áskilnaður um að mál samkvæmt lögum um aðför eða nauðungarsölu verði ekki tekið fyrir í gegnum síma eða fjarfundabúnað nema gerðarþoli veiti upplýst samþykki sitt. Í því sambandi má hafa til hliðsjónar kröfur laga um persónuvernd um samþykki hins skráða. Það er engum bjóðandi að búa við áhyggjur af því að kröfuhafar geti gert fjárnám í eignum sínum og komið af stað nauðungarsölu á heimili sínu, með einföldu símtali án samþykkis og aðkomu sinnar.

Enn fremur krefjast samtökin þess að 3. mgr. 12. gr. verði breytt þannig að sú framlenging tímafresta sem þar er gert ráð fyrir, geti einnig átt við um tímafresti vegna atvika sem geta varðað gerðarþola og sambærilegt ákvæði bætist við 10. gr. Þar á meðal má nefna frest til að andmæla frumvarpi til úthlutunar söluverðs samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga um nauðungarsölu og fresti til að leita úrlausnar dómstóla um ágreiningsefni samkvæmt 15. kafla laga um aðför eða eftir atvikum XIII.-XIV. kafla laga um nauðungarsölu, auk annarra tímafresta sem settir eru í viðkomandi lögum.

Rökin fyrir ofangreindu eru öll þau sömu og í greinargerð frumvarpinu nema auk þess að teknu tilliti til stjórnarskrárbundinnar jafnræðisreglu og réttlátrar málsmeðferðar, þannig að það sem þar kemur fram um að gætt hafi verið að samræmi við stjórnarskrá og ekki verði séð að frumvarpið geti haft neikvæð eða íþyngjandi áhrif fyrir almenning, samræmist raunverulegu efni frumvarpsins.


- o -


Virðingarfyllst,

f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is


Aðalfundur 2020

Reykjavík 25. febrúar 2020

12. aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2020
Haldinn í húsnæði Hjálpræðishersins, í Álfabakka 12 í Mjóddinni, þann 25. febrúar kl. 20:00

Dagskrá aðalfundar

Dagskrá:
1. Skipun fundarstjóra, ritara, og fundarsetning
2. Skýrsla stjórnar: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
3. Reikningar samtakanna: Guðrún Harðardóttir, gjaldkeri
4. Tillaga stjórnar um ákvörðun félagsgjalda
5. Tillögur um breytingar á samþykktum
6. Kosning 7 aðalmanna í stjórn
7. Kosning 3-7 varamanna í stjórn
8. Kosning skoðunarmanna
9. Önnur mál

---

Fráfarandi stjórn 2019-2020

Aðalstjórn:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (formaður), Vilhjálmur Bjarnason (varaformaður), Einar Valur Ingimundarson (ritari), Guðrún B. Harðardóttir (gjaldkeri), Guðrún Indriðadóttir, Hafþór Ólafsson, Róbert Þ. Bender.

Varastjórn:
Sigríður Örlygsdóttir, Björn Kristján Arnarson, Þórarinn Einarsson, Ragnar Unnarsson, Sigurbjörn Vopni Björnsson, Stefán Stefánsson.

Frambjóðendur til stjórnar 2020

Framboð til aðalstjórnar:

☐ Ásthildur Lóa Þórsdóttir ☐ Einar Valur Ingimundarson ☐ Hafþór Ólafsson
☐ Hólmsteinn Brekkan ☐ Sigríður Örlygsdóttir ☐ Róbert Þ. Bender
☐ Vilhjálmur Bjarnason

Framboð til varastjórnar:
☐ Björn Kristján Arnarson ☐ Ragnar Unnarsson ☐ Stefán Stefánsson
☐ Þórarinn Einarsson

---


Skýrsla stjórnar 2020

Skýrsla stjórnar ellefta starfsár Hagsmunasamtaka heimilanna, 26. febrúar 2019 til 25. febrúar 2020, fyrir 12. aðalfund samtakanna, 25. febrúar 2020.

Hagsmunasamtök heimilanna eru nýorðin 11 ára og héldu upp á 10 ára afmæli sitt með glæsibrag 7. október síðastliðinn um leið og þau opnuðu nýja vefsíðu, Neytendatorg.is.

Þó Hagsmunasamtökin ættu ekki að þurfa að vera til var full ástæða til að fagna því að þau hafi yfirleitt verið stofnuð 15. janúar 2009 af framsýnu hugsjóna- og baráttufólki, sem datt kannski ekki í hug að full þörf yrði enn á samtökunum 10 árum seinna.

Ég veit ekki hvort Íslendingar átta sig almennt á því að hefðu Hagsmunasamtök heimilanna ekki verið stofnuð, þá hefðu afskaplega fáir mótmælt meðferð stjórnvalda og bankakerfisins á lántakendum. Fáir strax eftir hrun og alls enginn enn þann dag í dag.

Íslendingar eru nefnilega meira fyrir spretthlaup en maraþon. Við sem þjóð, stökkvum á mál sem ná athygli okkar í smá tíma, en ef stjórnvöld tefja málin nógu lengi, þá komast þau upp með að gera hvað sem þau vilja þegar önnur mál fanga athygli okkar.

Það hefði aldrei verið hægt að hirða 15.000 heimili af fólki, þegjandi og hljóðalaust, ef úthald okkar sem þjóðar gegn spillingu, væri meira.

Hagsmunasamtökin hafa fyrir löngu sannað úthald sitt og þau hafa tekið maraþonið. Þau hafa haldið réttindum neytenda á fjármálamarkaði á lofti í heil 11 ár og staðreyndin er sú að án samtakanna væri enginn að gera það.

Þær þúsundir sem misstu heimili sín eftir hrun væru enn falinn, þögull og skömmustulegur hópur, ef ekki væri fyrir baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna.

Án þeirra væri heldur enginn að ræða verðtryggingu eða velta fyrir sér áhrifum hennar á hagkerfið og heimilin. Það er ekki síst vegna þrotlausrar baráttu Hagsmunasamtakanna sem verðtryggingin varð eitt aðalmálið í lífskjarasamningunum síðastliðið vor.

Þannig að þó að „Sigurinn“, með stóru „S-i“ sem við erum öll að bíða eftir, þegar réttindi neytenda á fjármálamarkaði verða tryggð, verðtryggingin verið afnumin í lánum til neytenda og hrunið gert upp með Rannsóknarskýrslu heimilanna, hafi ekki enn náðst, var samt sem áður full ástæða til að fagna 10 árum og því að við skulum hægt og örugglega færast nær settu marki. 

Hvernig borðar maður fíl? Svarið er einn bita í einu og að lokum klárar maður fílinn. Það er líka þekkt að „hver vegferð hefst með einu skrefi“ og ef aldrei er lagt af stað kemst enginn neitt. 

Þannig geta Hagsmunasamtökin litið til baka og séð alls konar vörður á leið þeirra sem sýna að neytendur á Íslandi eru í mun betri stöðu vegna þess sem Hagsmunasamtökin hafa áorkað en þeir væru ef þau hefðu ekki verið til eða gefist upp á að „borða þennan fíl“.

Það er árangur og arfleifð sem skiptir máli til langs tíma.

Þess vegna var virkilega ástæða til að fagna og halda upp á 10 ára baráttu og úthald. 

Afmælishátíðin okkar tókst vel og mæting var framar öllum okkar vonum. Við viljum því þakka öllum þeim sem mættu og þá sérstaklega þeim sem töluðu en það voru Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri ásamt því sem félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hélt tölu og opnaði Neytendatorgið formlega.

Stór liður í starfsemi samtakanna er að hafa áhrif á umræðuna um hagsmunamál heimilanna á fjármálamarkaði. Það gerum við með fréttatilkynningum, greinaskrifum, umsögnum við lög og lagabreytingar, þátttöku í nefndum, fundum með aðilum á ýmsum sviðum þjóðlífsins og mætingum á opna fundi þar sem við vekjum athygli á málstað okkar.

Fulltrúar samtakanna hafa fundað með fjölmörgum ráðamönnum, bæði á Alþingi og innan stjórnsýslunnar auk annarra og það líður vart sú vika að fulltrúar þeirra fundi ekki með einhverjum aðilum enda erum við tilbúin til að hitta hvern og hverja sem óska eftir því til að fara yfir málin, teljum við það gagnast málstað neytenda.

Einnig leggjum við oft töluvert á okkur til að hitta þá sem hafa engan sérstakan áhuga á því að eiga við okkur samskipti, gefi þeir einhver færi á sér.

Fulltrúar samtakanna hafa því sótt fjölmarga opna kynningarfundi á árinu. Við höfum séð að það margborgar sig að vera sýnileg og nýta tækifæri til að beina spurningum á opnum fundum, til þeirra sem oftar en ekki vilja sem minnst af málefnum heimilanna vita.

Til dæmis sóttu fulltrúar samtakanna opinn fyrirlestur Háskóla Íslands um bók Svein Haralds Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra: Í víglínu íslenskra fjármála. Á þeim fundi sat Gylfi nokkur Magnússon í pallborði og þar spurðum við hann hvort honum hefði verið kunnugt um loforð Steingríms J. til kröfuhafa varðandi seðlabankavexti á gengistryggðu lánin. Gylfi neitaði allri vitneskju um það loforð en spurningin virtist þó koma illa við hann og Svein Harald, þáverandi seðlabankastjóri, kannaðist ekki heldur við þetta loforð þáverandi fjármálaráðherra.

Með því að mæta á þennan fund ásamt fundi sem Seðlabankinn hélt árið 2018 í Hörpu með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og bera þar fram fyrirspurnir, höfum við fengið það staðfest að þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, gaf kröfuhöfum bankanna loforð sem hefur valdið heimilum landsins gríðarlegum og ómældum skaða, án þess að bera það undir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, viðskiptaráðherra eða seðlabankastjóra, hvað þá almenning.

Eftir stendur því spurningin, hver var með honum í ráðum, þegar hann gaf nýjum kröfuhöfum, jafnvel vogunarsjóðum, loforð sem bar með sér ásetning um að svipta fólki samningsrétti sínum? Og fleiri spurningar vakna líka um leið, eins og hver hafi gefið honum heimild til þessa loforðs og hvernig hann hafi séð fyrir sér að fá dómstóla og löggjafarvaldið í lið með sér til að framfylgja því?

Sé litið til baka þegar við höfum nú í mörg ár staðið frammi fyrir afleiðingum þessa loforðs sem hann virðist hafa gefið upp á sitt einsdæmi, eftir að dómsvaldið, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið gengu í lið með honum og tóku þátt í að brjóta lög- og stjórnarskrárvarin réttindi varnarlausra borgara, þá hljótum við að spyrja okkur hvernig það hafi getað gerst og hvaða embættismenn og kjörnu fulltrúar hafi hoppað á vagninn með honum til að tryggja að þetta löglausa og heimildarlausa loforð yrði uppfyllt.

Við eigum rétt á svörum við þessum spurningum og þeim verður Steingrímur J. að svara og benda um leið á samverkamenn sína svo þeir geti svarað fyrir sig.

Allt á að vera upp á borðum, því það er í leyndinni sem spillingin þrífst.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa komið að minnst fjórum dómsmálum á liðnu ári. Meðal annars um fyrningu verðbóta, frumrit skuldabréfa, vexti gengislána og skaðabætur vegna verðtryggðra lána. Ég ætla ekki að rekja þá sögu alla hér en skaðabótamálið vegna verðtryggðra fasteignalána er orðið að framhaldssögu sem ekki virðist ætla að sjá fyrir endann á og er slæmur vitnisburður um dómskerfið á Íslandi enda eru dómstólar í mjög furðulegri vegferð í viðleitni sinni til að verja ríkið og hagsmuni þess.

Sérstaklega hefur hið nýja dómstig Landsréttur, valdið vonbrigðum, því þar hafa vinnubrögð verið með eindæmum hroðvirknisleg og léleg. Án þess að fara nánar í öll þau mál var ríkið sýknað af skaðabótakröfu vegna verðtryggðra lána með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar þar sem málarekstur stendur nú yfir.

Við höfðum miklar væntingar þegar loksins tókst að senda mál vegna gengistryggðra lána til Mannréttindadómstóls Evrópu skömmu fyrir jólin 2018. Það var okkur því töluvert áfall þegar við fréttum í haust að dómstóllinn hefði hafnað málskotinu og fellt málið niður vegna tæknilegs ágalla. Unnið er að því að koma öðru máli af stað sem gæti farið í gang á næstu vikum.

Þá má nefna að úrskurður Neytendastofu um að skilmálar um breytilega vexti og vaxtabreytingar á sjóðfélagalánum LSR og LIVE hefðu verið í andstöðu við lög, var meðal annars á grundvelli kvörtunar frá samtökunum. Ýmis fleiri mál eru í gangi varðandi skilmála um breytilega vexti þar sem hefur tekist að fá þeim hnekkt en eftir á að útkljá um leiðréttingu eða uppgjör.

Eitt af því sem við höfum verið að ræða við þingmenn og flokka er að Hagsmunasamtökin fái leyfi til að bera mál undir úrskurðaraðila eins og Neytendastofu eða dómstóla, þó samtökin séu ekki „aðilar máls“ í persónulegri merkingu. Við teljum það í hæsta máta óeðlilegt og í andstöðu við tilgang laga á sviði neytendaverndar að brot þurfi að hafa valdið einhverjum einstaklingum skaða til að kvarta megi yfir þeim og ekki megi bregðast við brotum fyrr en þau séu fullframin.

Hagsmunasamtök heimilanna eru orðin 11 ára. Þau hafa sýnt og sannað gildi sitt og áunnið sér virðingu fyrir málflutning, því þó hann sé á stundum hvass er hann alltaf yfirvegaður og málefnalegur. Enginn hefur getað hrakið neitt af því sem Hagsmunasamtökin hafa haldið fram og gögn sem síðar hafa komið fram, hafa alltaf staðfest málflutning þeirra.

Það er út af vönduðum málflutningi sem opinberir aðilar og stjórnmálamenn, hætta sér sjaldnast í umræður við okkur. Þeir kjósa því yfirleitt að hunsa það sem við segjum og vonast til að við þreytumst á baráttunni, svipað og laxinn gerir ef hann er þreyttur nógu lengi, og gefumst upp.

Það munum við aldrei gera.

Baráttunni fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði er hvergi nærri lokið. Verðtryggingin hefur ekki enn verið afnumin og Rannsóknarskýrsla heimilanna hefur ekki litið dagsins ljós.

Verðtryggingin var þó í aðalhlutverki við gerð lífskjarasamninganna síðastliðið vor og það má að miklu eða jafnvel öllu leyti þakka Hagsmunasamtökum heimilanna, því þau vöktu máls á skaðsemi hennar skömmu eftir hrun og hafa viðhaldið þeirri umræðu alla tíð síðan, þar til sífellt fleiri baráttumenn tóku undir þennan málflutning. Stuðningur við fullt afnám verðtryggingar eykst stöðugt, enda er um eina stærstu meinsemd íslensks þjóðfélags að ræða.

Réttlæti handa þeim sem misstu allt í hruninu er ekki enn fengið en baráttan fyrir því heldur stöðugt áfram. Vandinn við baráttu sem staðið hefur árum saman, eins og deilurnar um gengistryggðu lánin, er að eftir því sem árunum fjölgar verða málin margslungnari og víglínur breytast og færast til. Þess vegna teljum við að það sé engin möguleiki á alvöru uppgjöri nema skipuð verði rannsóknarnefnd af hálfu Alþingis með víðtækar rannsóknarheimildir, sem sé ætlað að skila af sér því sem við höfum kallað Rannsóknarskýrslu heimilanna.

Bæði þessi baráttumál, afnám verðtryggingar og Rannsóknarskýrsla heimilanna, eru þörf og þau munu áfram vera í forgrunni Hagsmunasamtakanna ásamt því að fundið verði út hvað það kostar að lifa hófsömu og mannsæmandi lífi samkvæmt marktækum mælikvörðum, og að lágmarkslaun verði svo reiknuð út frá þeim forsendum. Það er stórt vandamál að hér á landi hefur þetta ekki verið gert og það er ein af ástæðum þess að svo illa gengur að semja um kaup og kjör þegar engin veit hver lágmarkslaun þurfa að vera til að hægt sé að lifa af þeim.

Núna þegar samtökin eru orðin 11 ára er kominn tími til þess að slíta barnsskónum og víkka út sjóndeildarhringinn.

Þekkingin sem býr innan Hagsmunasamtakanna er gríðarleg. Ég tel mér óhætt að halda því fram að hér á landi sé hvergi til staðar jafn yfirgripsmikil þekking á réttindum neytenda á fjármálamarkaði og sú þekking nær líka inn á önnur svið neytendaréttar.

Þessa þekkingu þurfum við að geta nýtt betur og fá bolmagn til að nýta hana sem skyldi í þágu neytenda á fjármálamarkaði.

Þegar íslendingar standa frammi fyrir stærstu fjárfestingum lífs síns fá þeir allar sínar ráðleggingar hjá þeim sem sitja hinumegin við borðið og eru að lána þeim. Þeir fá ráðleggingar sínar hjá þeim sem bera allt aðra hagsmuni en neytenda fyrir brjósti.

Það nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Stjórn Hagsmunasamtakanna er þess vegna að vinna að því um þessar mundir að ná einhverskonar þjónustusamningi við ríkið, sem myndi gera okkur kleift að auglýsa þjónustu okkar og hjálpa fleirum en við ráðum við að gera í dag.

Neytendur sem standa í fasteignakaupum og lánaviðskiptum eiga rétt á hlutlausri og faglegri ráðgjöf, sem Hagsmunasamtökin geta veitt eins og þau hafa þegar sýnt og sannað.

Annað sem Hagsmunasamtökin geta er að veita fólki lögfræðilega ráðgjöf og leiðbeiningar, svo sem til þeirra sem þurfa að fara í gegnum nauðungarsöluferli og fjárnámsgerðir, því þar eru ráðleggingar af skornum skammti og hagsmunir kröfuhafa í forgangi.

Hagsmunasamtökin hafa sinnt ráðgjöf og hjálpað þúsundum í sjálfboðavinnu og af hugsjón í 11 ár. Fyrir vikið hafa nokkrir ráðherrar rétt að þeim „smáræði“ hér og þar, eða að meðaltali 1,8 milljónir á ári, sem hrekkur ekki fyrir miklu en hefur svo sannarlega munað um.

Á meðan hefur Umboðsmaður skuldara fengið að meðaltali 555 milljónir á ári fyrir að leiðbeina fólki um hvernig það geti gengist undir kröfur bankanna sem hafa hagnast um 650 milljarða á þessum sama tíma.

Það er staðreynd að Hagsmunasamtökin hafa hjálpað mun fleirum en UMS ef dómsmál eru tekin með í reikninginn. Sé beitt samskonar meðaltalsreikningi og við beitum á UMS, hefur hver einstaklingur sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa hjálpað kostað ríkið 5.000 krónur á móti 930.000 krónum hjá UMS. Mismunurinn er 186 faldur.

En af hverju á ríkið að koma að þessum málum?

Sem svar við því má alveg spyrja hvort ríkið eigi að koma að nokkrum málum?

Þörfin er víða mikil og hæpið er að aðstöðumunur sé jafn mikill á milli aðila í nokkrum málum eins og þegar reynir á réttindi neytenda á fjármálamarkaði. Það er því gríðarlega mikil þörf á að þjónusta Hagsmunasamtaka heimilanna standi öllum til boða sem hana þurfa.

Saga undanfarinna 11 ára kennir okkur að ekki er hægt að treysta stjórnvöldum fyrir því að gæta hagsmuna almennra borgara gegn fjármálaöflunum. Þörfin fyrir samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna hefur því alls ekki minnkað með árunum. Hún hefur þvert á móti vaxið og samtökin sýnt fram á gildi sitt og nauðsyn fyrir íslenskt samfélag.

Það fer ekki á milli mála að þó staða heimilanna eftir hrun hafi alls ekki verið góð, þá væri hún mun verri ef samtökin hefðu ekki reynt að verja hagsmuni þeirra með öllum ráðum. Hagsmunasamtök heimilanna eru rétt að byrja og stjórnvöld eða fjármálafyrirtæki munu aldrei aftur geta farið með heimilin eins og þau gerðu í kjölfar hrunsins á meðan við stöndum vaktina og við munum standa hana áfram.

fyrir hönd stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður


Starfsárið í tölum og megindráttum 

Umræðan: 
Stór liður í starfsemi samtakanna er að hafa áhrif á umræðuna um ýmis hagsmunamál heimilanna á fjármálamarkaði. Samtökin hafa lengi haldið umræðu á lofti um heimilin 15 þúsund sem var fórnað í endurreisn bankakerfis og það er farið að skila sér með opnari umræðu um þessi mál í samfélaginu, eftir margra ára tilhneigingu til þöggunar. Ágætur vitnisburður um slíka áherslubreytingu er ádeila áramótaskaupsins 2019 á fyrirtæki sem hagnaðist á neyð almennings á húsnæðismarkaði eftir hrun og var hyllt fyrir framgang sinn og gróða. Þetta er hárbeitt ádeila, sem því miður er sannleikanum samkvæmt og endurspeglar gagnrýna umræðu í þjóðfélaginu, sem sífellt ber meira á.

Formaður HH, Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur verið iðin við skrif um endurreisn bankakerfisins, aðgerðir í kjölfar hrunsins og áhrif þess á heimilin, spillingu, dómskerfið, hagnað bankanna, umboðsmann skuldara og annað sem hefur beina og óbeina tilvísun í hrunið, heimilin og réttindi eða réttindaleysi fólks í viðskiptum sínum á fjármálamarkaði. Skrif hennar hafa vegið þungt í þessari umræðu. Á liðnu ári voru verkefni samtakanna til umfjöllunar í fjölmörgum fjölmiðlum vegna fréttatilkynninga, umsagna við lagafrumvarp, greinaskrifa og annara viðburða. 

Félagsmenn geta kynnt sér nánar helstu verkefni samtakanna á árinu 2019 og greinaskrif Ásthildar Lóu Þórsdóttur í annál HH, í þessari ársskýrslu. Hér fyrir neðan er árið tekið saman í grófum dráttum með helstu verkefnum og fundum samtakanna á liðnu ári.

Fundir:
Fulltrúar samtakanna funduðu m.a. með félags - og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni og dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur með embættismönnum dómsmálaráðuneytisins. Samtökin voru boðuð á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, efnahags- og viðskiptanefnar Alþingis, og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Þau funduðu einnig með þingflokki Framsóknarflokksins, þingmönnum úr röðum Pírata og Miðflokks. Formaður HH flutti framsögu á opnum fundi um sögu gengistryggingarmála á Íslandi, hjá Framsóknarfélagi Reykjavíkur. Fulltrúar samtakanna áttu einnig fund með Neytendasamtökunum og VR vegna lögbanns á innheimtu smálána og stöðu neytendaverndar á fjármálamarkaði. Þau funduðu með formanni og varaformanni Öryrkjabandalags Íslands um málefni heimilanna. Þau fóru á fund starfshóps á vegum utanríkisráðuneytisins um kosti og galla EES samningsins (á 25 afmælisári innleiðingar hans á Íslandi) og kynntu áhrif samningsins á neytendarétt á Íslandi. Fulltrúar HH áttu auk þess fund með nefnd um endurskoðun á fyrirkomulagi úrskurðarnefnda á fjármálamarkaði.

Stjórnarmenn hafa sótt fjölmarga opna kynningarfundi á árinu. Þeir helstu voru opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands um bók Svein Haralds Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra: Í víglínu íslenskra stjórnmála, opinn fundur Norræna félagsins um: Hrunið, endurreisninina og Norðurlöndin. Vinir í raun eða hvað? ásamt kynningarfundi Íbúðalánasjóðs um aðgerðir til lækkunar þröskulda á húsnæðismarkaði, Húsnæðisþingi, ýmis málþing á vegum háskóla og margt fleira.

Haldnir hafa verið 32 stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi, einn viðburður - 10 ára afmælisfögnuður HH og tveir opnir spjallfundir félagsmanna.

Helsti viðburður samtakanna 2019 var 10 ára barátta fyrir heimilin 2009-2019. Þá héldu samtökin upp á tíu ára starfsemi með félagsmönnum og samstarfsaðilum, ásamt því að ný vefsíða samtakanna Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna var opnuð af félags- og barnamálaráðherra.

Umsagnir og erindi:
Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent a.m.k. 60 umsagnir til stjórnvalda og Alþingis á árinu og fjölmörg erindi til stofnanna og eftirlitsaðila. Þau helstu eru til Fjármálaeftirlitsins ásamt kvörtun til Neytendastofu yfir skilmálum og vaxtabreytingu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. HH sendu einnig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd erindi með kröfu um stjórnsýsluúttekt á sýslumannsembættum. Enn fremur var ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 um vaxtaskilmála áfrýjað og krafist banns við vaxtahækkun Arion banka en málinu var vísað til nýrrar meðferðar Neytendastofu.

Samstarf:
Samtökin tóku þátt í stefnumótunarvinnu í málefnum barna á vegum Félagsmálaráðuneytisins. Varaformaður HH tók þátt í ráðstefnu um aukinn kvíða í samfélaginu og samtökin tóku þátt í kröfugöngu verkalýðsins 1. maí, með kröfuspald á lofti.

Fjölmiðlar: 
Samtökin sendu frá sér 10 fréttatilkynningar á liðnu ári og fulltrúar þeirra fóru í fjölmörg viðtöl. Tíu ára starfsafmæli samtakanna og opnun neytendatorgs fékk mjög góðar viðtökur fjölmiðla og talsvert var fjallað um viðburðinn. Greinar formanns hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum en hún skrifaði 6 greinar á árinu og birtust þær á vefsíðu samtakanna og Vísi. 

Á liðnu ári voru viðtöl við fulltrúa HH og fréttir af samtökunum fjölmargar. Samtökin komu við sögu með einum og öðrum hætti í fjölmiðli samtals í a.m.k. 40 tilvikum.

Málaferli: 
Skaðabótamál HH vegna verðtryggra fasteignalána: Ríkið var sýknað af skaðabótakröfu vegna verðtryggðra lána með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019 í málinu nr. E-514/2018. Héraðsdómi var áfrýjað til Landsréttar 26. mars 2019 en undirbúningsþinghöld fóru fram í Landsrétti 9. febrúar og 4. febrúar 2020.

Gengistryggð lán: Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði málskoti HH vegna gengistryggðra lána og felldi málið niður. Er því hafinn undirbúningur að nýju máli með öðru vísi nálgun.

Breytilegir vextir: Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að skilmálar um breytilega vexti og vaxtabreytingar á sjóðfélagalánum LSR og LIVE hefðu verið í andstöðu við lög, meðal annars á grundvelli kvörtunar frá HH. Neytendastofa hefur einnig til meðferðar mál félagsmanns HH vegna skilmála um vaxtaendurskoðun í verðtryggðum lánum Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú eru í eigu Arion banka, en bankinn hefur viðurkennt sök og ágreiningur stendur um viðbrögð við því og leiðréttingu eða endurgreiðslu til lántakanda. Þá hefur Landsbankinn einnig viðurkennt ólögmæti skilmála um breytilega vexti í máli félagsmanns sem er til meðferðar úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en ágreiningur stendur þar einnig um leiðréttingu vegna þess.

Félagsmenn:
Félagsmönnum voru send 5 fréttabréf á liðnu ári og lögfræðingur HH sinnti á þriðja hundrað skráðum erindum frá félagsmönnum og ráðgjöf ásamt fleiri óskráðum leiðbeiningum.

Ársskýrsla Hagsmunasamtaka heimilanna 2019-2020

 

 

 Samtökin eru rekin á árgjaldi félagsmanna sem eru og hafa frá stofnun samtakanna verið valkvæð. Í valkvæðu árgjaldi felst að félagsmanni ber ekki skylda til þess að greiða það til að halda áfram aðild að samtökunum. Félagsmaður getur því falið greiðsluseðil í heimabanka þar til hann/hún hefur kost á því að styðja við samtökin.   Reglulega leita samtökin eftir fjárhagslegum stuðningi eða styrkjum hjá því opinbera eða stéttarfélögum en því miður hafa samtökin aldrei átt greiða leið að fjárhagslegum stuðningi, þrátt fyrir mikilvægt starf. Stjórnarmenn vonast til að það muni breytast með vitundarvakningu um mikilvægi þess að efla neytendarétt á fjármálamarkaði.   Hjá félaginu starfa tveir starfsmenn í hlutastarfi og báðir vinna að verkefnum  stjórnar ásamt því að sinna daglegum rekstri félagasamtakanna.
Stjórn samtakanna fundar að jafnaði einu sinni í viku um málefni félagsmanna og önnur hagsmunamál heimilanna. Stjórnarmenn eru sjálfboðaliðar og starfa að hugsjón við hagsmunamál heimilanna.   Starf stjórnar er þverpólitískt en í því felst að stjórnarmenn koma úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að tala fyrir hagsmunum heimilanna með því að bæta kjör og réttindi lánþega á fjármálamarkaði.

Stjórn samtakanna heldur úti umræðuvef á FB (Facebook) undir nafni samtakanna og hvetur félagsmenn og aðra til þátttöku í umræðu um verkefni stjórnar eða önnur samfélagsmál. Hópurinn er lokaður og því þarf að óska eftir aðgangi, sem að jafnaði er veittur þeim sem sækir um.   Samtökin reka einnig FB síðu undir yfirskrift nýrrar vefsíðu samtakanna - Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna - þar sem fréttatilkynningar og fleira efni frá samtökunum verður deilt og er opið öllum. Við hvetjum félagsmenn og aðra gesti að koma með tillögur eða athugasemdir því markmiðið með Neytendatorgi HH er að veita sem besta upplýsingagjöf fyrir íslensk heimili.

Félagsmenn eru tæplega níu þúsund og hafa lengst af verið á milli átta og níuþúsund einstaklingar. Síðustu ár hafa samtökin boðið félagsmönnum reglulega uppá opna spjallfundi með fulltrúum stjórnar. Samtökin hafa einnig staðið fyrir félagsfundum og borgarafundum þegar stjórn telur þörf á.   Við hvetjum félagsmenn til þáttöku í starfi samtakanna og eru opnir spjallfundir og aðalfundur HH greiður aðgangur fyrir félagsmenn. Aðalfundur er haldinn snemma árs eða fyrir febrúarlok ár hvert.

Aðalstjórn HH 2019-2020: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Einar Valur Ingimundarson, Guðrún B. Harðardóttir, Guðrún Indriðadóttir, Hafþór Ólafsson, Róbert Þ Bender, Vilhjálmur Bjarnason.

Varastjórn HH 2019-2020: Sigríður Örlygsdóttir, Björn Kristján Arnarson, Þórarinn Einarsson, Ragnar Unnarsson, Sigurbjörn Vopni Björnsson, Stefán Stefánsson.

Stefnuskrá:

  1. Barátta gegn verðtryggingu lána heimilanna.
  2. Leiðréttingar á verðtryggðum og gengistryggðum lánum heimilanna til samræmis við neytendarétt.
  3. Barátta gegn mannréttindabrotum í málsmeðferð skuldamála heimilanna.
  4. Rannsókn á aðgerðum sem ráðist var í eftir hrun og afleiðingum þeirra fyrir heimilin.
  5. Fundið verði hvað kostar að lifa hófsömu mannsæmandi lífi og framfærsla verði tryggð til samræmis við það.

Lögfræðingur Hagsmunasamtaka heimilanna veitir félagsmönnum einstaklingsráðgjöf. Félagsmenn geta hringt á skrifstofuna á símatíma (10-13 mánudaga og þriðjudaga) og óskað eftir ráðgjöf eða sent tölvupóst á heimilin@heimilin.is, alla virka daga. 

Á Neytendatorgi Hagsmunasamtaka heimilanna verður hægt að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um réttindi og skyldur í viðskiptum lánþega, efnisflokkur sem smám saman mun verða viðameiri.

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum